143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

verndartollar á landbúnaðarvörur.

[10:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverða fyrirspurn og gott tækifæri til að koma inn í þá fjölmiðlaumræðu sem hefur verið afspyrnusérkennileg á síðustu dögum, hv. þingmaður notaði reyndar hugtakið ofurtollar einnig. Ég veit að það hljómar sérkennilega í eyrum þeirra sem trúa þeim áróðri sem kemur upp árlega að hér séu ofurtollar og einhver sérstök vernd á Íslandi, en staðreyndin er nefnilega sú að Ísland er frekar frjálslynt land í innflutningi á matvælum og í tollalöggjöf. Þannig er það satt að segja. Til að kalla tollana ofurtolla þurfa menn að bera þá saman við hvað aðrir gera. Það er einfaldlega þannig. Þess vegna stunda menn viðskiptasamninga, fríverslunarsamninga og þess vegna búa menn til tollabandalög eins og ESB, til að verja framleiðslu sína gagnvart öðrum, og fara í samninga hver við annan um gagnkvæma niðurfellingu á tollum þar sem annar aðilinn fær eitthvað gegn því að hinn fái eitthvað annað. Þannig virkar þetta kerfi í heiminum.

Það gæti út af fyrir sig verið áhugavert ef menn tækju allan stuðning brott frá öllum atvinnugreinum og þær þyrftu bara að standa undir því sem þær gerðu. Þá yrði staðan hins vegar sú að verð á matvælum yrði miklu hærra, eins og það var fyrir 50–60 árum þegar um 50% af tekjum fólks fór í að kaupa matvöru og sumir fengu jafnvel ekki nóg eða fyrir 70 árum hér á Íslandi og víða um heiminn. Það er markviss stefna allra ríkja að halda matarverði eins lágu á almennum matvörum og hægt er. Það er m.a. gert með vörugjöldum og tollum hér á landi og ríkisstuðningi, til að tryggja lágt matarverð, það er staðreyndin. Ætli það fari ekki 14–16% af tekjum fólks til matvælainnkaupa og þar af 7–8% til innlendrar matvælaframleiðslu samkvæmt vísitölunni? Það hefur aldrei verið lægra og matur hefur sennilega aldrei verið ódýrari á Íslandi hlutfallslega, svo að það sé nú sagt.

Ég næ því miður ekki að svara spurningu þingmannsins (Forseti hringir.) en skal gera það í seinni ræðu, (Forseti hringir.) er varðar þær breytingar sem hægt er að fara (Forseti hringir.) fram á.