143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

málefni Farice.

[11:25]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir að þetta málefni skuli vera tekið til sérstakrar umræðu af hv. þingmanni og þakka sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra fyrir svör hans og hvernig hann fór yfir þetta mál.

Í stuttri ræðu gefst ekki tími til að fara yfir alla þessa sögu en það verður auðvitað að segjast eins og er að þáverandi ríkisstjórn í október 2007 samþykkti að leggja nýjan streng, sem seinna var kallaður Danice, frá Íslandi. Það var talið nauðsynlegt og við skulum hafa í huga að strengirnir sem sáu um þetta mikilvæga samband við umheiminn frá okkur voru stundum að bila. Einhvern tíma var sagt, ég veit ekki hvort það var í gríni eða alvöru, að rottur hefðu nagað strenginn í sundur eða skemmt hann í Skotlandi og þar með urðum við sambandslaus við umheiminn.

Það var því tekin ákvörðun, metnaðarfull og stór og mikil ákvörðun um að leggja nýjan streng milli Íslands og meginlands Evrópu og inntökustaðurinn í Evrópu var Danmörk. Síðan verður auðvitað að segjast eins og er að áhrif hinnar alþjóðlegu efnahagskreppu á þjónustuna og allt það sem átti að ganga eftir, eins og gagnaverin, sem voru auðvitað forsenda fyrir þessari lagningu, voru slík að þetta breyttist mikið.

Það er það sem við erum að glíma við með þetta fyrirtæki og þau áform eða þessar lagningar sem voru gerðar. Í allri þeirri umræðu sem hefur farið fram hefur nú margt verið vitlaust sagt en ég tel að af hálfu ríkisins alla tíð síðan, og skiptir þá engu hvaða flokkar sátu í stjórn, hafi verið staðið faglega að því að bjarga því sem þurfti að bjarga í framhaldi af efnahagskreppunni, og alveg sérstaklega því að áform um uppbyggingu gagnavera gengu ekki eins mikið eftir og vonir stóðu til 2007. Þar spilar efnahagshrunið líka inn í.