143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

málefni Farice.

[11:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin áðan og hv. þingmönnum fyrir þátttöku í þessari umræðu. Eins og oft vill verða fer umræðan út um víðan völl því að hér er fyrst og fremst verið að tala um ábyrgð ríkisins varðandi þennan streng.

Það er búið að fara hér yfir söguna og við áttum streng sem hét Farice en Danice var einkaframtak. Þegar efnahagshrunið varð var tekin meðvituð ákvörðun hjá þeirri ríkisstjórn sem þá sat að sameina þessa strengi og taka skuldbindingar einkafyrirtækisins í fang ríkisins. Við skulum ekkert vera að deila um það hér.

Staðan er svona núna árið 2014. Við sjáum fram á það að leggja þurfi 400 milljónir af ríkisfé inn í þetta fyrirtæki árin 2014, 2015 og 2016, samtals 1.200 milljónir. Það er það sem ég er að benda á fyrst og fremst í þessari umræðu, við verðum að vera meðvituð um í hvað skattarnir okkar fara.

Verkefnið er hýst núna í tveimur ráðuneytum, innanríkisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Hv. þm. Haraldur Benediktsson kom hér með tillögu að lausn, að Farice fari út úr fjarskiptasjóði þannig að sjóðurinn geti sinnt því hlutverki sínu að byggja upp fjarskiptakerfi innan lands þar sem allir hafa aðgang jafnt að neti, ljósleiðurum, símkerfum og öðru. Þau mál eru ekki í góðu standi hér á landi. Þetta er það sem við erum fyrst og fremst að benda á með þessari umræðu.

Hér er haft í flimtingum og hv. þm. Kristján Möller benti á að þetta sé svipað og að leggja jarðgöng. Því miður er umferðin um þennan risastóra, allt of stóra, streng, Farice-strenginn, jafn mikil og umferðin á Melrakkasléttu, verð ég að segja. Það er ekki nema 3–5% notkun á strengnum þannig að hann er allt of stór (Forseti hringir.) fyrir íslenskt samfélag eins og staðan er núna.

Virðulegi forseti. Mikið vildi ég óska þess að við gætum séð það í framtíðinni að hér aukist umferð um strenginn og við getum farið að hafa hagnað af honum en málið er ekki í nógu góðum farvegi nú.