143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[12:23]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er heiður að því að svara hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í þessu máli. Ég er ekkert endilega hræddur um að álver í Helguvík beri einhvern skaða af því þó að við séum að ræða sæstreng til Evrópu, ég er alls ekki hræddur um það. Ég held að við höfum það mikla orku í landinu okkar að við höfum full tækifæri á því að koma að því góða verkefni og ég ítreka líka mörgum, mörgum öðrum, það er ekki eina verkefnið sem við þurfum að hugsa um. Það er auðvitað verkefni sem er klárt og mikilvægt að við komum í gang.

Ég er heldur ekki hræddur um að við getum ekki bæði komið góðum verkefnum af stað á Íslandi og í Evrópu, með sæstreng til Evrópu. Ég hef aftur á móti sagt að við þurfum þá líka að átta okkur á því hvað það þýðir. Við rekum orkuver okkar á u.þ.b. 95% afköstum í dag. Þau eru vel nýtt, sem er annað en t.d. orkuver Norðmanna, á þeim er að jafnaði 30–40% nýting. Þeir eiga þess vegna auðveldara með að selja umframorku, t.d. til Hollands.

Við þurfum því að skoða þetta: Erum við tilbúin í það að fara í sérstakar virkjanir til að framleiða á bilinu 600–900 megavött til að flytja út til Englands? Það er bara umræða sem við þurfum að taka og við þurfum að vera klár í þá umræðu.

Mér finnst að við höfum náð nokkuð vel sáttum í nefndinni um þetta. Ég skil reyndar hv. þingmann afar vel að vilja fá þetta skorinorðara en þetta var niðurstaðan. Ég hlakka til að eiga áframhaldandi samræður við hann og nefndina um þetta mál. Þetta er, þrátt fyrir að ég hafi auðvitað ákveðnar efasemdir, spennandi kostur, ég viðurkenni að þetta er spennandi mál og afar fróðlegt að hafa kynnt sér það. En númer eitt, tvö og þrjú legg ég áherslu á að við klárum þau verkefni sem bíða, eru í startholunum núna, og svo förum við í þetta á fullu gasi.