143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í grunninn erum við, ég og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, sammála í þessu máli, þ.e. að í sameiginlegri niðurstöðu nefndarinnar komi fram að engum dyrum sé lokað. Ég vil nú ekki taka undir það með hv. þingmanni að ég hafi verið neikvæður, ég vil orða það þannig að ég hafi verið varkár; og varúð hefur aldrei, svo að ég viti til, drepið nokkurn mann. Ég tel rétt að hafa hér uppi mikla varúð, meðal annars út af þeim umhverfisáhrifum sem ég nefndi áðan í ræðu minni.

Jú, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að sveigjanleiki í þessari sölu er mikill og verð á kílóvattstund er hátt miðað við það sem við höfum verið að selja. Þess vegna liggur okkur heldur ekkert á vegna þess að ég er sammála hv. þingmanni um að orku sem selst við þessu verði er mjög auðveldlega hægt að framleiða sem vindorku. Þar sem við erum svo mikil lúxusdýr, búum við rennslisvirkjanir sem eru stabílar og stöðugar, hefur okkur ekki legið á að virkja vind.

Það er hins vegar annað sem veldur mér nokkrum áhyggjum í þessu máli, af því að nú snýst þetta um að selja rafmagn til Evrópu. Ísland er þegar allt of háð Evrópu um utanríkisviðskipti. Við erum að selja 80% af útflutningi okkar til Evrópusambandslanda, sem er allt of hátt hlutfall eins og sést best á því að þegar héraðsbrestur verður í syðri helmingi álfunnar erum við í stórum vanda. Þess vegna eigum við að leita viðskiptatækifæra um allan heim. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að þessi tenging við Evrópu hvað þetta varðar sé enn meiri áhætta fyrir okkur inn í framtíðina.