143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

markaðar tekjur ríkissjóðs.

306. mál
[17:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef enga efnislega afstöðu tekið til frumvarpsins, ég er einfaldlega að velta upp ágöllum sem ég sé á því. Það eru nokkur atriði sem mér finnst orka tvímælis. Ég geri mikinn greinarmun á því hvort um er að ræða markaða tekjustofna eins og að peningar eigi að renna í Fiskræktarsjóð, sem er bara eitthvert verkefni sem er ákveðið á Alþingi, eða hvort um er að ræða framlag í Atvinnuleysistryggingasjóð, sem er hluti af grundvallarmannréttindum fólks í landinu, kjarasamningsbundum réttindum sem hafa verið við lýði í meira en 100 ár — það hefur verið barist fyrir því í meira en 100 ár, þau hafa nú ekki verið við lýði í meira en 100 ár.

Grundvallaratriðið er að ríkissjóður er ekki í stakk búinn til að borga atvinnuleysisbætur í 10% atvinnuleysi í kjölfar efnahagsáfalls, hann er það ekki. Það verður að verða til sjóðsöfnun. Þess vegna er rangt, held ég, að hugsa um alla, eða sem sagt nálgast hugtakið markaðir tekjustofnar svona vítt.

Annað dæmi, bara af því að ég hef persónulega reynslu af því, að vera í kreppu og geta nýtt efnahagsástandið til að byggja hjúkrunarheimili úti um allt land vegna þess að markaðir tekjustofnar eru í Framkvæmdasjóði aldraðra. Það var mjög mikilvægt fyrir íslenskt samfélag og fyrir þau sveitarfélög sem hafa notið þess. — Ég sé hér hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir framan mig, það var til dæmis hægt að byggja langþráð hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ vegna þessara mörkuðu tekjustofna. Það hefði ekki verið mögulegt annars.

Ég nefni Fjármálaeftirlitið, ég bið nefndarmenn að velta því upp hvort það sé ekki rétt munað hjá mér að þetta gjaldtökufyrirkomulag byggi á alþjóðlegum stöðlum um fjármálaeftirlit. Ég nefni umboðsmann skuldara sérstaklega sem ég held að hefði aldrei orðið að veruleika nema af því að hægt var að leggja gjald með sérstökum hætti (Forseti hringir.) á sérstaka aðila.