143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

verðbréfaviðskipti og kauphallir.

189. mál
[14:18]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og lögum nr. 110/2007, um kauphallir (framkvæmd fyrirmæla, tilkynning um viðskipti o.fl.).

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðbjörgu Evu Baldursdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Fjármálaeftirlitinu og Persónuvernd.

Meginefni frumvarpsins snýr að breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, með síðari breytingum. Þá felur frumvarpið einnig í sér tillögu að breytingu á lögum um kauphallir, nr. 110/2007, með síðari breytingum. Breytingartillögur frumvarpsins eru að mestu til komnar vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA við innleiðingu á MIFID-tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB. Þá er verið að bregðast við nokkrum ábendingum um meinbugi á lögum um verðbréfaviðskipti er lúta að aukinni fjárfestavernd og eflingu eftirlits á verðbréfamarkaði, m.a. í ljósi lærdóms af fjármálakreppunni.

Virðulegur forseti. Meðal helstu atriða frumvarpsins eru tillaga um breytingu á II. kafla laga um verðbréfaviðskipti sem fjallar um fjárfestavernd og skyldur fjármálafyrirtækja á skipulegum verðbréfamarkaði við framkvæmd viðskiptafyrirmæla. Lagt er til nýtt ákvæði sem ætlað er að taka af allan vafa um að markaðsaðilum beri ekki skylda til að yfirfæra þær skyldur sem á þeim hvíla við framkvæmd viðskipta samkvæmt kaflanum, svo sem um skriflegan samning, skráningu og yfirlit, sbr. 9. gr., um upplýsingagjöf til viðskiptavina, sbr. 14. gr., og um bestu framkvæmd, sbr. 18. gr., í viðskiptum sín á milli. Þó er áréttað að fjármálafyrirtæki skuli framfylgja skyldum skv. II. kafla gagnvart viðskiptavinum sínum þegar þau framkvæma viðskiptafyrirmæli fyrir þeirra hönd á skipulegum verðbréfamarkaði.

Önnur breyting sem lögð er til í frumvarpinu er að fjármálafyrirtæki verði óheimilt að bjóða fjárfesti þjónustu áður en búið er að fella hann í viðeigandi flokk viðskiptavina.

Einnig er lagt til að fjármálafyrirtækjum verði gert skylt að tilkynna viðskipti með fjármálagerninga hjá öllum viðskiptavinum sínum með einkvæmu auðkenni viðskiptamanns, eða því sem kallast á venjulegu máli kennitala. Hingað til hefur verið stuðst við sérstakt viðskiptanúmer eða reikningsnúmer sem sérkenni viðskiptamanns. Tilkynningarnar eru hluti af svokölluðu TRS-kerfi, með leyfi forseta, „Transaction Reporting System“. Núverandi fyrirkomulag er með þeim hætti að hvert fjármálafyrirtæki fyrir sig gefur hverjum aðila að viðskiptum viðskiptanúmer. Hver viðskiptavinur getur því verið með fjölda mismunandi viðskiptanúmera, eitt í hverju fjármálafyrirtæki. Eftirlitsaðilar hafa talið þetta fyrirkomulag gallað þar sem upplýsingarnar séu ekki á heppilegu formi sem aftur torveldi alla úrvinnslu og greiningu. Í því sambandi vekur nefndin athygli á að fjallað var sérstaklega um TRS-kerfið og annmarka þess í 4. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar segir að gagnagrunnur, sem myndaður er úr þeim upplýsingum sem TRS-kerfið safnar, hafi í aðdraganda hrunsins ekki verið notaður þar sem m.a. eiginleikar þeirra gagna sem kerfið skilar væru á óheppilegu formi til greiningar og það torveldaði allt eftirlit. Nefndin bendir á, virðulegur forseti, að verði sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu samþykkt mun eftirleiðis stuðst við einkvæmt auðkenni, þ.e. kennitölu í stað viðskiptanúmers í öllum tilkynningum fjármálafyrirtækis til Fjármálaeftirlitsins um viðskipti viðskiptamanna. Þetta á við hvort heldur er um að ræða persónur eða lögaðila. Það er því mat nefndarinnar, virðulegur forseti, að þetta nýmæli sé til þess fallið að einfalda kerfið og auðvelda eftirlit.

Virðulegur forseti. Loks er lagt til að nýtt ákvæði komi inn í lög um kauphallir, nr. 110/2007, sem fjallar um réttindi skipulegra verðbréfamarkaða til að koma á gagnkvæmu sambandi á milli skipulegs verðbréfamarkaðar og miðlægs mótaðila eða greiðslujöfnunarstöðvar sem starfa innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Nefndin telur umræddar breytingar til þess fallnar að styrkja umrædda löggjöf og vekur athygli á að fyrir nefndinni komu ekki fram neinar athugasemdir við efni frumvarpsins.

Virðulegur forseti. Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Þeir sem skrifa undir nefndarálitið eru hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, Vilhjálmur Bjarnason, Pétur H. Blöndal, Willum Þór Þórsson, Árni Páll Árnason, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon.