143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

stefnumótun í vímuefnamálum.

[16:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Neysla fíkniefna er stöðugt að verða stærra þjóðfélagsböl. Hún er alltaf að færast niður í yngri aldurshópa og viðvarandi kannabisneysla margra einstaklinga er mikið áhyggjuefni. Auðvitað er þetta mál mikið félagslegt vandamál og heilbrigðisvandamál og löndin í kringum okkur hafa beitt ólíkum leiðum til að takast á við fíkniefnavandann. Svíar hafa beitt mjög hamlandi stefnu, Hollendingar eru með mjög frjálslynda stefnu og Portúgalar hafa tekið upp svokallaða afglæpunarstefnu sem gerir ekki refsivert að neyta fíkniefna eða hafa þau í fórum sínum.

Helstu rökin með refsistefnunni eru að senda þau skilaboð út í samfélagið, sérstaklega til ungs fólks, að neysla fíkniefna sé ekki liðin í samfélaginu og að sú fordæming hafi það í för með sér að færri byrja að neyta fíkniefna. Rökin gegn refsistefnu eru að hegningarlögum skuli ekki beita nema afbrot skaði eða ógni öðrum einstaklingum eða hagsmunum þeirra.

Fíkniefnaneysla virðist að mörgu leyti lúta eigin lögmálum og erfitt er að meta hvað vænlegast er til árangurs í því alþjóðaböli. Ég tel að við eigum að taka umræðuna út frá öllum hliðum því að hún er nauðsynleg. Það er engin ein leið til að draga úr fíkniefnaneyslu og öllum þeim alvarlegu vandamálum sem fylgja henni, glæpatíðni og öðru því um líku. Það er enginn stóri sannleikur í þeim málum. Ég segi fyrir mína parta að ég vil stíga varlega til jarðar í auknu frjálsræði, en ég tel rétt að við tökum umræðuna óhikað því að hún er nauðsynleg. Við vitum öll að þetta er gífurlegt vandamál hjá okkur sem og hjá öðrum þjóðum.