143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að biðja hæstv. utanríkisráðherra um að afturkalla þá yfirlýsingu sem hann gaf í fjölmiðlum í gær um að ekki yrði horft til annarrar skýrslu sem von er á frá annarri háskólastofnun, nefnilega þeirri sem aðilar vinnumarkaðarins hafa beðið um frá Alþjóðamálastofnun. Ég treysti því að ráðherra í ríkisstjórn Íslands telji framlag verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins mikilvægt í þessum málum og að skýrsla frá einni stofnun við Háskóla Íslands sé jafn mikils virði og jafn merkileg og skýrsla frá annarri stofnun við sama háskóla.

Hitt má taka undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni að það er erfitt að elta ólar við alla vitleysuna sem kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra og orðhengilsháttinn. Víst eru ekki undanþágur í boði, en það eru sérlausnir í boði. Er sérlausnin um heimskautalandbúnað ekki varanleg? Nei, kannski er hún ekki strangt til tekið varanleg en hún gildir a.m.k. á meðan það er kalt í Finnlandi. Telur hæstv. utanríkisráðherra að von sé á því að það breytist í fyrirsjáanlegri framtíð eða hvað? Auðvitað eru varanlegar sérlausnir í boði og auðvitað getum við fengið að ráða yfir fiskimiðum okkar eftir ýmsum reglum sem eru í gildi í Evrópusambandinu og engar undanþágur þarf frá.

Skýrslan dregur ákaflega vel fram hversu mikilvægt það er fyrir okkur, sem höfum þurft að setja lög um að útlendingar megi ekki fara með peningana sína úr landi af því að við höfum ekki efni á því, að fá svör við því í Brussel hvaða kostir séu í boði. Við getum fengið þau svör. (Forseti hringir.) Hæstv. utanríkisráðherra, hvers vegna ertu svona hræddur við að fá svarið í sjávarútvegsmálum?