143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:15]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn höldum við áfram umræðunni um tjakkinn. Svör við þessu fást auðvitað aldrei til fulls fyrr en spurningunni er beint að þeim sem getur svarað henni, sem er Evrópusambandið sjálft. Ég er tilbúinn að standa að góðum aðildarsamningi og ég er tilbúinn að vera andvígur vondum aðildarsamningi ef það er það eina sem við fáum.

Það að ekki hafi verið áður samið um varanlegar sérlausnir á sviði sjávarútvegs eða landbúnaðar segir ekkert um það hvort við gætum fengið slíkar lausnir vegna þess að í fæstum tilvikum hafa aðildarríki staðið frammi fyrir því að þetta hafi verið stór hluti af efnahagskerfi viðkomandi ríkja.

Ný aðildarríki hafa hins vegar fengið varanlegar sérlausnir, jafnvel á fjárfestingarreglunum sem eru grunnur að Evrópusambandinu, það allra helgasta. Þar af leiðandi tel ég fullkomlega raunsætt að ganga út frá því að við gætum lagt fram með góðum rökum tillögur um varanlega sérlausn innan ramma núgildandi regluverks sem mundi tryggja hagsmuni Íslands um ókomna tíð. Það er það sem stendur í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar og það er það sem Evrópusambandið veit fullvel að við höfum lagt upp með. Það eru þær sérþarfir Íslands í sjávarútvegsmálum sem stækkunarstjórinn veit nákvæmlega um og það er til þeirra sérþarfa í sjávarútvegsmálum sem hann vísaði til þegar hann sagði opinberlega og við mig: Ég er sannfærður um að við höfum úrræði til að mæta sérþörfum Íslands í sjávarútvegsmálum, í landbúnaðarmálum, í gjaldmiðilsmálum og í öðrum málum sem máli skipta.