143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef hv. þingmaður var að spyrja hvort ég teldi að það væri þjóðarinnar að ákveða þetta (Gripið fram í.) þá er svarið já, ég tel að það sé þjóðarinnar að ákveða það. (Gripið fram í.)

Hins vegar liggur það fyrir, bara svo að ég rifji það upp fyrir hv. þingmanni því að hann hefur nú ekki verið með mér í flokki um langt skeið þó að hann hafi einhvern tíma verið þar, að síðasti landsfundur hreyfingar minnar samþykkti að rétt væri að ljúka viðræðunum. En þá var miðað við eitthvert ár fram í tímann.

Af því að hv. stjórnarliðar eru mjög uppteknir af fortíðinni, mér finnst það mjög merkilegt, hefði ég gjarnan viljað heyra hvernig nákvæmlega hv. þingmenn stjórnarliðsins ætla að leiða málið áfram, því að það liggur fyrir að svo lengi sem viðræður standa yfir mun það breyta öllum samskiptum og hlýtur að kalla á að við endurmetum afstöðu okkar gagnvart því hvernig nákvæmlega fara á með málið.

Ég bíð því spennt eftir svörum frá hv. stjórnarliðum hérna. (Utanrrh.: … ræðu á morgun.)