143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:53]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að hér séu einhver tíðindi. Þetta er allt endurtekið efni. Það hefur komið fram fyrir löngu og margoft, bæði í umræðu í þinginu og í samfélaginu almennt, að það væri alls ekki víst og raunar ólíklegt að það þjónaði hagsmunum Íslands að birta áætlun um hvernig stjórnvöld sjá fyrir sér að staðið verði að afnámi hafta, hvað þá að menn færu að birta nákvæmar tímasetningar í því efni.

Það breytir þó ekki því að að sjálfsögðu þurfa menn að skipuleggja sig vel og hafa heildaryfirsýn. Þar vísa ég aftur til þeirrar vinnu sem nú er vonandi að ljúka í Seðlabankanum um mat á greiðslujöfnuði.

Í öllu falli er ljóst að staða okkar til að takast á við þetta vandamál og leysa úr því er sterk og allir, a.m.k. langflestir, hafa hag af því að gera það sem þarf að gera svo hægt verði að aflétta höftum. Það vekur bjartsýni um að af því geti orðið áður en mjög langt um líður.