143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:59]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þingmaður kallar eftir því að fólk lýsi skoðunum sínum þá taldi ég mig hafa gert það. Ég er á þeirri skoðun að við eigum að hætta aðildarviðræðunum. Ég lagði fram tillögu í þinginu á fyrra þingi, á síðasta kjörtímabili, um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að draga umsóknina til baka. Það er mín skoðun. Ég stend á þeirri skoðun, er enn á þeirri skoðun og þessi skýrsla styrkir mig í þeirri skoðun. Jafnframt sannfærir sú umræða sem átt hefur sér stað í þingsalnum, bæði í gær og í dag, mig enn frekar um að fyrrverandi ríkisstjórn hafi farið í málið á illa útbúnum hesti án þess að vera með það á hreinu hvernig hún ætlaði að ljúka málinu, en sá augljósi galli var á að ríkisstjórnarflokkarnir voru ekki sammála um hvernig málið ætti að enda.

Stóri punkturinn í málinu og það sem við eigum að læra af þessu ferli er að þetta er ekki leiðin til þess að klára aðildarviðræður, ef einhver mun einhvern tímann leggja aftur í þann leiðangur.