143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri enga sérstaka kröfu til þess að þessi hv. þingmaður haldi sig á vegi sannleikans. Ég held að enginn þingmaður hafi jafn oft þurft að koma í ræðustól til að leiðrétta ummæli sín og hann. Helmingurinn af staðhæfingunum í ræðu hv. þingmanns var rangur. Ég hef ekki tíma til að elta ólar við það. Mig langar þó að drepa við eitt. Hv. þingmaður sagði að því hefði verið haldið fram að varanlegar undanþágur væru í boði. Hver hélt því fram? Frá upphafi vega stóð umræðan í þessum sal um hvort það væru varanlegar undanþágur sem verið væri að sækjast eftir eða sérlausnir. Ég veit ekki hversu margar rökræður ég tók við þingmenn um það.

Hér varð uppi fótur og fit þegar ég kom frá Brussel hafandi afhent umsóknina og sagði við evrópska fjölmiðla að Íslendingar sæktust ekki eftir undanþágum. Menn trúðu hvorki sínum eigin augum né eyrum. Ég rakti þá fyrir þingheimi hvaðan sú hugmynd væri komin, ekki bara úr Evrópuskýrslunni heldur er upphaf þeirrar nálgunar að rekja til formanns Framsóknarflokksins sem þá var utanríkisráðherra. Það var hann sem benti á leið sérlausnarinnar.

Hv. þingmaður segir síðan að enginn árangur hafi náðst í landbúnaði og sjávarútvegi en sá árangur náðist eigi að síður að í skýrslunni er sagt að engin óleysanleg vandamál séu uppi varðandi landbúnaðinn.

Hv. þingmaður virðist ekki vita að nánast var til fullbúin samningsafstaða í sjávarútvegi sem var ágreiningslaus í þeim hópi. Ef því er haldið fram af hálfu þingmanna Framsóknarflokksins að svo sé ekki, að menn hafi ekki verið komnir að niðurstöðu í því, segi ég: Hvers vegna birtum við ekki þá samningsafstöðuna? Hvers vegna vill Framsóknarflokkurinn ekki birta samningsafstöðuna í sjávarútvegi og í landbúnaði?