143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er vonandi ekki ósanngjarnt að velta því fyrir sér hvort hv. þingmaður er á höttunum eftir manninum eða boltanum með þessum sérstaka inngangi að spurningum sínum.

Varðandi það sem ákveðið var vorið 2009 liggur það allt fyrir og ég held að við bætum litlu nýju við þó að við förum yfir það. Í samræmi við landsfundarsamþykkt Vinstri grænna á öndverðu ári 2009 varð það niðurstaða flokksins, samþykkt með yfir 100 atkvæðum á flokksráðsfundi, að ganga til ríkisstjórnarsamstarfs á þeim grunni sem þar var samið um, gegn örfáum atkvæðum. Kannski hefur hv. þingmaður verið einn af þeim fjórum eða fimm sem voru í talsverðum minni hluta með sjónarmið sín þar.

Við erum lýðræðislegur flokkur. Við tökum ákvarðanir, hvort sem þær eru um samstarf við aðra flokka eða málefnalegar, með atkvæðagreiðslum á fundum okkar. Það eru stofnanir flokksins og meirihlutavilji flokksmanna sem ráða ferðinni. Það hefur ýmsum gengið erfiðlega að skilja en auðvitað geta menn greitt atkvæði með fótunum eins og kunnugt er og farið eitthvert annað.

Hin almenna afstaða okkar er sú að þetta sé stórmál af því tagi að í raun og veru sé það þjóðin sjálf og þjóðin ein sem geti að endingu gengið frá því. Ég nefndi í ræðu minni, sem ég veit ekki hvort hv. þingmaður hlustaði á, kostina sem í grófum dráttum væru uppi í stöðunni, þrír til fjórir og enginn gallalaus að mínu mati. Það er ágætt að stjórnarliðar noti tíma sinn til að spyrja okkur, ekki kvarta ég undan því, það er eðlilegt, og við reynum að svara. En það er kannski ekki síður þeirra sem fara með málin og hafa völdin að skýra hvernig þeir ætla að fara með þau. Það hefur meira vægi.

Við höfum reynt, bæði í dag og í gær, að spyrja forustumenn stjórnarflokkanna annars vegar út í efndir kosningaloforða og hins vegar út í það hver verði næstu skref í málinu. (Forseti hringir.) Ég hef ekki heyrt eina setningu um það enn þá hvað ríkisstjórnin hyggist fyrir næst í framhaldi af útgáfu skýrslunnar. (Forseti hringir.) Veit hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, ólaunaður aðstoðarmaður í forsætisráðuneytinu, eitthvað um það?