143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[13:51]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisspurningu. Ég er mikill áhugamaður um að velta fyrir mér framtíð, fortíð og nútíð og en Evrópusambandið er samvinnuvettvangur sem er í sífelldri þróun þannig að mjög erfitt er að gera sér fulla grein fyrir því hvort Evrópusambandið verði eins og það er í dag eftir einhver missiri eða ár þegar Ísland gæti í fyrsta lagi orðið aðili að því eða eitthvað lengra fram í tímann. Ég tel að Evrópusambandið eins og það er í dag sé að mörgu leyti mjög ákjósanlegur samvinnuvettvangur sem Ísland ætti að taka þátt í.

Þegar við tölum um sérlausnir vil ég leggja minna upp úr þeirri umræðu en margir aðrir þingmenn hér. Ég tel að þótt vissulega séu ákveðnar sérlausnir eða útfærslur sem við þurfum að sjá svart á hvítu í samningnum, sérstaklega þegar kemur að sjávarútvegi, sé þetta líka ekki síður spurning um það að Íslendingar sjái svart á hvítu hvernig núverandi reglur sambandsins munu koma við íslenskan sjávarútveg. Ég held að við séum oft í raun komin fram úr þeirri spurningu og segjum gjarnan: Auðvitað þurfum við sérreglur um íslenskan sjávarútveg. Við erum kannski að einhverju leyti farin að gera það „automatískt“ og án þess að velta fyrir okkur hver stefna Evrópusambandsins er í dag og hvaða áhrif hún mundi hafa á íslenskan sjávarútveg ef við gengjum í sambandið án sérlausnar í dag. Ég held að það sé umræða sem við þyrftum að taka líka.