143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að vitna beint í skýrsluna þar sem meðal annars er tekið fram að staðið hafi til að setja opnunarskilyrði á Íslendinga í sjávarútvegsmálum, opnunarskilyrði sem felur í sér að við eigum að vinna áætlun um það hvernig við ætlum að innleiða allt regluverk Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum.

Lokunarskilyrðið til að mynda í tilefni Króatíu varðandi landbúnaðarmál fól í sér að það ætti að vera búið að vinna allar breytingar á löggjöfinni. Það sem er sagt skýrt í skýrslunni er að þetta eru ekki eiginlegar samningaviðræður. Við þurfum að aðlagast regluverki Evrópusambandsins. Við höfum fylgst með þessu undanfarin ár.

Samfylkingin hélt því fram að hagkerfið mundi rísa við það eitt að senda inn umsókn. Umsóknarviðræður áttu aðeins að taka 18 mánuði. Það átti einungis að taka stóru málin strax. Makríllinn átti fyrst ekki að hafa áhrif á aðildarumsóknina. Menn töluðu um að þetta væru varanlegar undanþágur og það væri hægt að fá varanlegar undanþágur.

Hvað hefur komið á daginn? Þetta hefur allt hrakið sig sjálft. Getur ekki verið, þrátt fyrir greinilega (Forseti hringir.) mikinn vilja hv. þingmanns og Samfylkingarinnar til að skrifa annað regluverk í Evrópusambandinu en (Forseti hringir.) þar er, að Samfylkingin hafi rangt fyrir sér í þessu máli eins og hún hefur haft í því sem ég rakti hér áðan?