143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni um það að ég held að fá samtök hafi unnið jafnmikla vinnu í því að ræða ESB, þó að mér hafi oft á tíðum fundist sjónarhornið vera of þröngt. Ég man eftir því á þessum fundi, og raunar kom það fram á fleiri fundum, að menn voru að velta vöngum yfir áhrifunum á landbúnaðinn — eitt af því sem hafði verið sagt var að býlum myndi fækka, að býlin yrðu stærri, að framleiðslustyrkirnir yrðu teknir út o.s.frv. og eingöngu yrði styrkur við búsetu á einhverjum af fámennari svæðunum.

Við ræddum það einmitt á þessum tíma líka, þó að ég muni ekki nákvæmlega hvort það var á þessum fundi eða öðrum, hver þróunin hefði orðið algjörlega óháð ESB, hver þróunin hefði orðið á Íslandi varðandi landbúnað. Það hefur ekkert þurft ESB til. Það hefur orðið gríðarleg samþjöppun, býlum hefur fækkað, menn byggja afkomu sína á því að vera í öðru en landbúnaði. Það er enn þá þannig að bændur búa ekki við nein lúxuskjör, t.d. hvað varðar sauðfjárræktina. Þetta eru allt saman hlutir sem við þekkjum. Þó hefur það alltaf legið fyrir, og það hefur komið ágætlega fram hjá Bændasamtökunum, að aðalvandinn mun ekki verða sauðfjárræktin eða íslensku búfjárstofnarnir sem við höfum viðurkenningu á að hafi sérstöðu. Það eru aðrir þættir undir hvað það varðar.

Einnig er að koma upp umræða, kannski algjörlega óháð því hvort við höldum áfram í þessum aðildarviðræðum eða ekki, um það einokunarumhverfi sem við erum að sumu leyti með, samþjöppunin á þeim markaði o.s.frv., kosti þess og galla og líka, hvernig við höfum í raun verið að sækja okkur vörur erlendis og koma með þær inn á markaðinn. Allt eru það hlutir sem þarf að ræða vegna þess að þetta kerfi þarf eins og öll önnur að vera í endurskoðun og lagfæringu. Það er kannski kosturinn við aðildarumsóknina að í umræðum um hana hafa menn einmitt þurft að diskútera svona hluti og spegla þá í öðru umhverfi en því íslenska.