143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:27]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti mat það þannig, eftir að þingflokksfundir stjórnarflokkanna voru afstaðnir og búið var að fallast á framlagningu þeirrar þingsályktunartillögu sem hér hefur verið gerð að umræðuefni, að það væri í þágu þingsins að þessi tillaga kæmi fram þó að utan þingfundar væri.

Það er rétt, sem hv. þingmaður sagði, meginreglan er sú, á að vera sú og er í þingsköpum sú, að þingmálum sé dreift á þingfundi. Þó hefur stundum verið brugðið út frá því af efnislegum ástæðum. Að mati forseta voru hinar efnislegu ástæður þær að málið hafði þá þegar verið afgreitt út úr stjórnarflokkunum, að umræða hefði hafist um það á opinberum vettvangi, að þingflokkar stjórnarflokkanna hefðu samþykkt framlagningu þessa máls. Þingforseti var þess vegna þeirrar skoðunar og er, og má vel gagnrýna það, að nauðsynlegt hafi verið og réttlætanlegt að dreifa þessu þingskjali utan þingfundar þannig að það lægi þá fyrir með opinberum hætti og hv. þingmenn sem og aðrir gætu þá rætt þetta út frá þeirri efnislegu vissu sem fælist í því að hafa fengið í hendur þetta þingskjal.

Forseti vill síðan nefna það í lokin að hann hugleiddi þessi mál mjög og velti því meðal annars fyrir sér hver viðbrögðin yrðu ef hann mundi ekki dreifa þessu þingskjali, umfjöllun um það hæfist með einhverjum hætti, eins og raunin varð strax síðdegis á föstudaginn, án þess að þingmenn hefðu fengið skjalið í hendur og meðal annars minnugur þeirrar umræðu sem fram fór í kjölfar þess að skýrsla Hagfræðistofnunar var orðin opinber úti í þjóðfélaginu áður en henni var dreift hér á Alþingi. Minnugur þess varð það niðurstaða forseta að dreifa tillögunni með þeim hætti sem forseti gerði í lok dags á föstudag. Fyrr var ekki hægt að gera það.

Vel má vera að hv. þingmenn séu ekki sammála forseta um þetta, en forseti telur að með þessum orðum hafi hann flutt efnisleg rök fyrir ákvörðun sinni.