143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:56]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil minna ríkisstjórnarflokkanna á í hvers umboði við erum hérna. Það er gríðarlega mikill fjöldi fólks hér fyrir utan. Það þarf mjög mikið til til að fá fólk til að koma og mótmæla, það vitum við öll.

Það er jafnframt undirskriftalisti í gangi þar sem verið er að kalla eftir því að fólk fái að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og hafi eitthvað um meðferð málsins að segja. Ég vil taka fram að ég var sammála hæstv. fjármálaráðherra og greiddi atkvæði með breytingartillögu hans varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu þann 16. júní 2009. Ég var aftur á móti ekki meðmælt þingsályktunartillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur af því að það voru tæknigallar í henni (Gripið fram í.) og það er ekki rangt, eins hv. þm. Vigdís Hauksdóttir viðurkenndi á sínum tíma og eins og hefur komið fram víðs vegar í fjölmiðlum. Ég sagði því nei við óþingtækri þingsályktunartillögu.