143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Málið versnar eftir því sem það er lengur rætt hér. Ég vísa því sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir segir um tæknilega galla á bug því að svo var ekki. Hv. þingmenn sem eru búnir að lesa bók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar vita að þegar þar var komið sögu var Hreyfingin jafnvel gengin til liðs við ríkisstjórnina á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í.) Það er kapítuli út af fyrir sig hvernig síðasta kjörtímabil leið. Um það má lesa í viðkomandi bók.

Þeir sem sögðu nei við þessari breytingartillögu minni sumarið 2012 báru því við að ekki mætti blanda saman tvennum kosningum, kosningu um það hvort halda ætti viðræðum áfram og svo kosningu um þessar gölluðu tillögur stjórnlagaráðs sem voru bornar fyrir þjóðina, en nú opinberar þetta sama fólk hræsni sína og heimtar að núna fari breytingartillaga fyrir þingið eða þingsályktunartillaga sem á að blanda (Forseti hringir.) saman tvennum kosningum, sveitarstjórnarkosningum og kosningum um aðildarviðræður, [Háreysti í þingsal.] umsóknarviðræður. Ég held að ekki verði lengra komist í hræsninni.