143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:16]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir lagði mikla áherslu á það í ræðu sinni að þjóðin hefði einhvers konar aðkomu að málinu, einhvers konar aðkomu að því hvort aðildarviðræðum yrði hætt.

Ég vildi gjarnan fá að vita, bara svona fyrir forvitnissakir, af hverju það er svona miklu mikilvægara núna að þjóðin hafi aðkomu að þessari ákvörðun en var í huga þingmannsins þegar ákveðið var að fara í aðildarviðræður og um leið aðlögun. Það var miklu meiri ákvörðun, miklu meiri breyting á íslensku samfélagi, af hverju var ekki ástæða til að leyfa þjóðinni að koma að því þá?

Í öðru lagi vil ég gjarnan fá að vita, fyrir forvitnissakir: Hvernig telur þingmaðurinn að núverandi ríkisstjórn og stjórnvöld, sem ekki vilja fara í ESB, geti staðið í aðildarviðræðum ef þjóðin kemst að því að halda eigi viðræðunum áfram í þjóðaratkvæðagreiðslu? Telur þingmaðurinn það gerlegt eða yrði eitthvert vit í því? Og ef samninganefnd kæmist að samningsniðurstöðu, hvernig ætti slík ríkisstjórn að sannfæra þjóðina um að samþykkja þann samning? Ég vildi gjarna fá að vita þetta því að ég átta mig ekki á þessu.