143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemdir við þá lítilsvirðingu sem hæstv. utanríkisráðherra sýnir Alþingi Íslendinga. Nóg er nú að hann hafi fengið einhverja vikapilta til þess að hnoða saman óþingtækri tillögu á föstudag og böggla henni á dagskrá með bolabrögðum áður en umfjöllun um skýrslu hans sjálfs er lokið í þinginu en að hann láti ekki svo lítið að vera viðstaddur umræðu um þá skýrslu sem hann hefur sjálfur lagt fram, þegar hann hefur í ofanálag gefið öðrum skýrslum um þetta mál sem von er á þá einkunn að þær séu að engu hafandi vegna þess að hann kann ekki við það fólk sem er búið að biðja um þær, er óboðlegt. Þetta mál og framganga ríkisstjórnarinnar er orðið til svo háborinnar skammar að það tekur ekki nokkru tali.

Kemur hæstv. ráðherra loksins inn. Hann flækist hérna út úr salnum við hvert tækifæri því hann getur ekki setið undir því að heyra (Forseti hringir.) hvernig hann hefur haldið á málum. Það er full ástæða til að reyna að koma böndum á manninn (Forseti hringir.) og setja á hann tjaldhæla svo hann haldist í salnum.