143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég sagði hér fyrr í dag að stjórnarþingmenn mættu alveg halda sig fjarri vegna þess að þeir væru allir búnir að taka afstöðu. Ég túlka það á þann veg að hér sitji þó sex eða átta hv. stjórnarþingmenn og hafi þá að minnsta kosti áhuga á því að meta sína stöðu og hlusta á þau rök sem falla í umræðunni. Ég virði það mikils og fagna því.

En það er auðvitað sláandi að þeir sem þyrftu kannski mest á því að halda að hlusta á umræðuna og taka eitthvað inn af henni, miðað við það sem þeir hafa verið að tjá sig um í fjölmiðlum og miðað við þá umræðu sem fram kom hjá hæstv. ráðherra, skuli ekki vera hér líka, þeir ættu að vera hér og sýna þinginu þá virðingu að taka þátt í umræðunni.

Mig langar aðeins að benda á að ég hef fengið fyrirspurnir núna undanfarnar mínútur og klukkutíma út af því að enn sé á dagskrá þingsins mál nr. 3, í símanum okkar og hjá Alþingi. Ég ætla að biðja hæstv. forseta um að beita áhrifum sínum svo að það verði tekið út þannig að fólk haldi ekki að fyrri umr. um þetta ólukkans mál fari fram hér síðar í nótt.