143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:54]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir ræðu hennar og innlegg í umræðuna. Mig langar að heyra frá henni, af því að við erum líka að fjalla um að við höfum fengið inn tillögu sem er um að loka dyrum, hvaða dyr séu þá eftir opnar. Við erum með Seðlabankann í upplausn í augnablikinu, í óvissu, við ræðum það betur á morgun, og ég hef á tilfinningunni að hann standi á vegamótum og búið sé að fjarlægja skiltin og loka dyrunum og alls óljóst hvert stefna skuli.

Við fengum á viðskiptaþingi þá yfirlýsingu frá sérfræðingi sem þar kom inn og ræddi málin að forsenda þess að menn fyndu lausnir fyrir Ísland væri að það væri einhver áætlun, það væri að hafa plan. Ég hef ekki fundið það plan hjá hæstv. ríkisstjórn og við höfum heldur ekki séð neinar tillögur varðandi gjaldmiðilsmál, við höfum ekki séð hvað á að koma í staðinn fyrir Evrópusambandsaðild. Ég vil því inna hv. þingmann eftir skoðunum hennar á því.

Í öðru lagi langar mig að nefna að við fáum fréttir af því að menn hafi reynt að greina hverjir það eru sem í raunveruleikanum búa við íslenska krónu og hverjir sé utan við og búa við evrópska krónu. Við erum með 25% af atvinnulífinu sem á öll sín viðskipti í evrum, tekjur og viðskipti, og gerir upp í evrum. Er það eðlilegt ástand að við búum við mismunandi skilyrði eftir því hvaða fyrirtæki það eru, hvert umfangið er hvað það varðar?

Í síðasta lagi vil ég spyrja, af því að ég veit að hv. þingmaður er sérfræðingur í neytendamálum, ef tími vinnst til alla vega í seinna svarinu, hvaða þættir það eru sem snúa beint að neytendum sem skiptir mestu máli að við skoðum í tengslum við aðildarumsókn. Hún nefndi það örlítið í lokin en það verður betra að fá skarpara yfirlit yfir hvað það er sem snýr að neytendum sem við verðum að fá svör við. Aðild að Evrópusambandinu snýst fyrst og fremst um hvað hún þýðir fyrir fólkið í landinu.