143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:19]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með mörgum þeim sem hér hafa talað um þá samræðu sem hér á að eiga sér stað, en eins og gjarnan áður er það stjórnarandstaðan sem óskar eftir samtali við stjórnina. Hæstv. utanríkisráðherra sá ástæðu til að koma í andsvar við mig í dag og krefja mig um útskýringar á orðum fyrrverandi formanns Vinstri grænna. Það var öll efnislega samræðan sem hann átti við mig.

Þingstörfin eru að verða svolítið eins og Spamalot og ég hvet hæstv. ráðherra til að taka sér fyrrverandi utanríkisráðherra til fyrirmyndar í því að taka þátt í samtali við stjórnarandstöðuna. Ég hvet líka stjórnarliða til að koma ýmist í andsvör áfram eða í ræður því að ekki síður og að sjálfsögðu viljum við heyra ykkar afstöðu til þeirra mála sem hér er um að ræða og eru undir í þessari tillögu. (Forseti hringir.)

Svo vil ég gera athugasemd við það að á RÚV kemur fram að í fyrramálið á að koma á dagskrá aftur sú tillaga sem var tekin af dagskrá í dag. Það er ekki í samráði við þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar heldur í þeirra óþökk.