143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa í kjölfar forsætisnefndarfundar komið þeim skýru skilaboðum til hæstv. utanríkisráðherra að tillaga hans sæti mikilli gagnrýni og þurfi að taka breytingum til að hægt sé að nota hana sem gagn og þingskjal til umræðna.

Forseti Alþingis beitir sér að sjálfsögðu eins og honum sýnist þurfa til að greiða götu eðlilegra þingstarfa og til að endurreisa starfsfrið á Alþingi og hefur til þess fullt umboð og í raun og veru skyldur. Og þegar efni hins umdeilda hlutar snýr að þinginu sjálfu, sóma þess og heiðri og samviskuákvæðum stjórnarskrár er það ekki neitt sem forseti Alþingis getur að mínu mati keypt sér neina fjarvistarsönnun frá.

Ég held að það sé augljóst mál að hér verður ekki endurreistur eðlilegur starfsfriður fyrr en utanríkisráðherra hefur kallað þessa tillögu til baka og lagfært hana þannig að greinargerðin sé frambærileg. (Forseti hringir.)Það er eðlilegast að við gerum hlé á þessari umræðu um Evrópumálin þangað til það hefur verið gert. (Forseti hringir.) Aldrei þessu vant vill svo til að það er nóg af öðrum þingmálum til að ræða og við getum því notað tímann í það á meðan.