143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:35]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er hæstv. forseti settur í mikla klemmu af utanríkisráðherra. Hann situr hér í hliðarsölum, líklega með höfundi þessarar greinargerðar, hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni — það má leiða líkur að því að hann hafi skrifað þessa greinargerð — og þegir þunnu hljóði. Ætlar hann bara að þegja þetta mál af sér? Það er bara ekki hægt og það mun ekki gerast á vakt þeirra þingmanna sem hér eru, vegna þess að okkur stendur ekki á sama hvernig talað er og skrifað er í greinargerðum með tillögum frá ríkisstjórninni sem bornar eru fram á Alþingi, að rógur og slúður sé komið á dagskrá ríkisstjórnarinnar í þingskjölum, það hef ég aldrei séð áður.

Virðulegi forseti. Hér er enginn leikur í gangi eða leikrit til að tefja nokkurn skapaðan hlut. Okkur er hreinlega misboðið. Ég þekki ekki til þess að svona lagað hafi nokkurn tíma komist í þingskjöl áður, (Forseti hringir.) í gegnum forseta frá ríkisstjórn með vilyrði Sjálfstæðisflokksins og (Forseti hringir.) Framsóknarflokksins.

Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmenn þessara flokka fari að koma hér upp í stólinn og gera grein (Forseti hringir.) fyrir því hvers vegna þeir studdu það að málið kæmi svona hingað inn.