143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

dráttur á svari við fyrirspurn.

[15:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er oft beðið um frest til að svara fyrirspurnum frá þingmönnum af hálfu ráðuneytanna vegna þess að sækja þarf upplýsingar o.s.frv., en ég mundi gjarnan vilja að forseti gæfi okkur fleiri dæmi um að ráðuneyti neiti að gefa upplýsingar eða bæðu um frest til að veita upplýsingar í einhvern ótilgreindan tíma sökum þess að þau séu að svara öðrum sambærilegum spurningum, þ.e. öðrum aðilum.

Ég spyr þá hvar í goggunarröðinni Alþingi stendur og hvort það sé rétt forgangsröðun hjá innanríkisráðuneytinu. Ég veit að ráðuneytið sætir rannsókn af hálfu opinberra aðila en það breytir því ekki að þarna eru ákveðnir liðir sem innanríkisráðuneytið ætti að geta svarað þinginu um nú þegar, upplýsingarnar liggja fyrir og við vitum það.

Þá er það spurning hvaða vinnulag við setjum okkur í svona aðstæðum. Ég bið hæstv. forseta að gefa okkur dæmi um hvernig farið hefur verið með (Forseti hringir.) svona fyrirspurnir við sambærilegar aðstæður, ef sambærilegar aðstæður hafa nokkurn tímann verið uppi.