143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að við erum byrjuð í efnislegri umræðu um ýmislegt. Hér var nefnt í fullri alvöru að menn áttuðu sig ekki á því hvaða ómöguleiki fælist í því að ríkisstjórn mundi sækja um aðild að ríkjabandalagi sem væri með þá stefnu að vera ekki í. Vilja menn aðeins hugsa þetta. Sjá menn í anda forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar (ÁPÁ: Af hverju var þessu þá lofað?) (Gripið fram í: … þið vissuð þetta fyrir kosningar.) (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti biður enn og aftur um hljóð í þingsalnum.)(Gripið fram í.)(Forseti hringir.) (Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.)

Virðulegi forseti. Maður getur nú svolítið áttað sig á því hvernig þetta fer í sálarheill samfylkingarmanna í hrópunum úr þingsalnum, þetta fer ekki vel í þá. Af hverju? Sjáið þetta í anda? Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar — (Gripið fram í: … stefnu Sjálfstæðisflokksins …) (ÁPÁ: Þessu var lofað.) (Gripið fram í: … stefnuskrá …) (Gripið fram í.)(Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti er seinþreyttur til vandræða, en hann biður hv. þingmenn enn og einu sinni að hafa hljóð í þingsalnum og gefa hv. þingmanni sem hefur orðið næði til þess að tala.)

Sjáiði í anda forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar skrifa undir aðildarsamning að ESB, sjáið það í anda og koma svo heim — og hvað? Segja, heyrðu, þetta sem við vorum að eyða tíma í og setjast niður með ESB — alls ekki styðja það. Sjá menn það í anda? Reynið (Forseti hringir.) og útskýrið það fyrir forsvarsmönnum Evrópusambandsins (Forseti hringir.) að við munum sækja um aðild og vilja ekki um leið fara inn eða kanna þetta. (Forseti hringir.) Þetta er alveg séríslensk — ja, ég ætla ekki að hafa nein orð (Forseti hringir.) um það, þetta er hvergi annars staðar í heiminum gert eðli málsins samkvæmt. (Gripið fram í: … ritskoða stefnuskrá flokksins.) (Gripið fram í: … hlægilegt …)

(Forseti (EKG): Forseti biður þingmenn að gæta að tímamörkum og enn einu sinni biður þingforseti um hljóð í þingsalnum.)