143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

störf þingsins.

[17:02]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir umræðuna og spurninguna, og ég skal bara byrja á að svara spurningunni sem hún beindi til mín. Já, ég hef alveg áhuga á að ræða það við hæstv. landbúnaðarráðherra hvernig þessi hugmynd er til komin að vali hans í nefndina sem fjallar fyrst og fremst um útflutning, eins og þingmaðurinn tók fram í ræðu sinni. Einnig vil ég segja um það að ég hefði frekar viljað sjá þar aðila valda á grundvelli félagasamtaka en ekki einstakra fyrirtækja. Það vil ég að komi fram frá minni hálfu hér á þessari stundu, því að þau fyrirtæki sem þarna eru nefnd eiga sér samtök sem meðal annars eru Samtök iðnaðarins. Ef á að ræða um sóknarfæri fyrir þau fyrirtæki og fyrir landbúnaðinn þá finnst mér eðlilegt að gera það á vettvangi félagasamtaka.

Í öðru lagi vil ég benda á að eins og ég skildi fréttina eiga aðilar vinnumarkaðarins þarna aðild, þannig að þeir hafa í langan tíma verið aðilar að verðlagsmyndun búvöru og þannig presenterað viðhorf neytenda.

Um tollumræðu almennt er ég tilbúinn að segja það, og hef lengi gengið með þá hugmynd, að við eigum að losna upp úr þessu fari um tollverndarumræðu, að verslunin sé einhver óvinur bændanna og bændurnir séu einhverjir óvinir verslunarinnar og að þar þurfi að vera stöðug átök. Ég hef sagt það áður í þingræðu að ég vil einmitt draga forsvarsmenn verslunarinnar að þessu mikla verki því að íslensk landbúnaðarstefna hefur tvær grunnstoðir sem eru búvörusamningar og tollvernd. Tollverndin er ekki hluti af búvörusamningum, hún er á hendi stjórnvalda. Ég vil að tollverndin verði hluti af búvörusamningum og ég vil að við sameinumst um það, hvort sem um er að ræða iðnað, bændur eða verslun, að beita því stýritæki með virkum hætti þannig að við getum aukið hér vöruúrval, og ég vek athygli á því að tollverndin er ekki til að halda uppi háu vöruverði nema síður sé.