143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:01]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get skilið þá afstöðu að vilja ganga í Evrópusambandið. Ég get líka skilið þá afstöðu að vera andvígur því að viðræðunum sé slitið. En ég á afskaplega erfitt með að skilja hvernig nokkrum manni dettur í hug að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda viðræðum áfram þegar við erum með stjórn sem hefur ekki áhuga á inngöngu. Það er auðvitað ekki hægt. Það væri jafn gáfulegt og að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon færi í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn um að ganga í hann. Að sjálfsögðu gengur þetta ekki þannig fyrir sig, það er ekki hægt. (Gripið fram í.) Hvernig yrðu þær viðræður, ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon væri í viðræðum við hæstv. ráðherra Bjarna Benediktsson um að ganga í flokkinn? Það er ekki hægt.

Ég get hins vegar skilið að menn vilji ekki slíta viðræðunum, að menn vilji ganga í sambandið og að hægt væri að kjósa um að ganga í það eða ekki.