143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mig langaði reyndar að heyra svolítið meira um náttúruverndarmálin, það er vinkill sem er hvað sjaldnast ræddur. Ég hefði kannski átt að telja upp gjaldmiðilsmálin í spurningu minni, það eru sennilega mín mistök.

Þegar kemur að landbúnaðarmálum þá kom mér einmitt á óvart við lestur skýrslunnar hversu langt við virðumst hafa náð í þeim efnum gagnvart Evrópusambandinu, deilurnar virðast aðallega vera hérna á Íslandi og engum hefur tekist að útskýra fyrir mér nákvæmlega hvaða deilur það eru, á hvaða forsendum, ég finn það ekki í skýrslunni.

Þegar kemur að sjávarútvegsmálum kemur mér einnig á óvart á síðu 137 í þessum níu punkta lista — þar kemur fram að í tillögum að nýrri sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, með leyfi forseta, stendur í 7. lið:

„Aukin áhersla á svæðisbundna stjórnun og aukna ákvörðunartöku í héraði.

Í 8. lið stendur: (Forseti hringir.) „Framseljanlegar heimildir eða á ensku „Transferable Fishing Concessions“.“ (Forseti hringir.)

Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, hvort hv. þingmaður telji (Forseti hringir.) raunhæft í ljósi þessa, að við næðum (Forseti hringir.) okkar markmiðum í sjávarútvegsmálum gagnvart Evrópusambandinu.