143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[21:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann vitnaði í samtal sem ég átti við hv. þm. Björt Ólafsdóttur þar sem hún kom með mjög áhugaverða kenningu um það hvers vegna menn væru að flýta sér svona með þetta mál hingað inn og hvað væri hugsanlega í skýrslunni sem gæti rökstutt það.

Mér fannst líka áhugavert það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra í viðtali við fjölmiðla fyrr í kvöld þegar hann vísaði til blaðaviðtala við ráðamenn úti í Brussel og að í þeim hefði verið eitthvað að finna sem olli því að hann sá sig knúinn til að koma fram með þessa tillögu. Ég vil þá velta því upp við hv. þingmann hvort hann hafi jafn miklar áhyggjur af því og ég að ákvarðanataka íslenskra ráðamanna og ríkisstjórnarinnar byggi á einhverju sem menn segja í viðtölum úti í heimi.