143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[21:48]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem er stundum gaman þegar maður fær svona andsvör er að maður getur kastað spurningunum til baka. Ég hef orðið þess vís í umræðunni aftur og aftur að margt af því sem við vorum að gera, þau form sem voru valin, þær leiðir sem voru valdar — hér eru komnir inn nýir þingmenn og þeir og þjóðin, margir aðilar, gerir sér enga grein fyrir því hvernig þetta fór fram. Ég hef stundum haft á tilfinningunni, eins og ég sagði í ræðu minni, að menn hafi haldið að hér hefði setið utanríkisráðherra og ég sem velferðarráðherra á þeim tíma og við hefðum setið við að búa til einhver samningsmarkmið eða eitthvað slíkt, þetta var ekki unnið svona. Þetta var unnið þvert á alla flokka.

Það gerðu sér allir grein fyrir því að þetta mál er miklu stærra en einstakir flokkar, (Gripið fram í.) það er miklu stærra. Við spurðum ekki þjóðina varðandi það, við sögðum að við ætluðum að gera það þegar þetta væri komið til enda, samningurinn tilbúinn, og við lofuðum því. Við höfum alltaf sagt að það verður aldrei gengið í Evrópusambandið nema með vilja þjóðarinnar — eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það sem var líka forvitnilegt og við getum kannski komið að í seinna andsvari er sú vinna sem átti sér stað, sú rýnivinna sem oft hefur verið kölluð aðlögunarstörf, (Forseti hringir.) sem hefur gagnast okkur gríðarlega vel í að spegla okkar samfélag við ESB, hvað eru kostir og hvað eru gallar.