143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:44]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við köllum öll eftir því að fá að vita hvað verður fram undan þegar við förum inn í nóttina. Við erum hér í miðri umræðu um skýrslu, það eru 10 á mælendaskrá. Næsta mál er að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verði dregin til baka. Þá á ég von á því að þessi tillaga fari á dagskrá einhvern tíma um miðja nótt.

Mitt heimili er uppi á Akranesi og ég þarf þá að fara að panta mér gistingu hér, ég þarf að mæta á fund kl. hálfníu í fyrramálið. Kannski er ástæða til að hæstv. forsetar þingsins setjist niður og ákveði hvernig þeir ætla að fara inn í nóttina. Á að klára þessu umræðu? Ætlum við að hætta núna kl. 12 eins og verið hefur undanfarið, vitandi það að okkur liggur ekkert á í þessari umræðu, það er ekkert sem rekur á eftir. Eitthvað virðist hafa legið á þegar þessi tillaga kom fram en við höfum ekki fengið neina skýringu á því hvaða flýtir það var.