143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[01:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er klukkan að ganga tvö um nótt og enn vita hv. þingmenn ekki hvenær vaktinni lýkur. Þetta er óásættanlegt. Ég sé reyndar að hæstv. utanríkisráðherra er kominn í salinn. Hvað þýðir það? Þýðir það að hann ætlar að hlýða á ræður hv. þingmanna fram á nótt eða er hann að gera sig tilbúinn til að mæla fyrir máli sínu hér um miðja nótt? Við verðum að fá svör við því hvernig þessu á að hátta til hér. Það er ekki nokkur bragur á þessu. Þetta er engum bjóðandi. Þetta þætti ekki góð verkstjórn á togara. (Gripið fram í: Ekki fara að tala um …) Menn þurfa að vita hvenær vaktinni lýkur. Það er enginn lokadagur varðandi þessa skýrslu, eins og bent hefur verið á. Við getum vel haldið áfram umræðu um hana eftir góða hvíld á björtum degi.