143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[02:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Eins og ítrekað hefur komið fram finnst mér skipta máli að vita í hvaða samhengi ég tala þegar ég stend hér og ræki það hlutverk sem kjósendur hafa falið mér. Það samhengi hef ég ekki fengið frá hæstv. forseta. Ég hef auðvitað gruflað þó nokkuð yfir þessu. Hér erum við í næturvinnu af því að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru í spreng að komast í það að svíkja loforð sín við kjósendur. Ég fór að hugsa: Er verið að dylja það? Ekki eigum við von á frumvarpi um afnám verðtryggingar. Það kosningaloforð á líka að svíkja. (Gripið fram í: Það kemur …) Er verið að teygja lopann af því að heimsmetið gengur illa eða er erfitt að smíða frumvarp um heimsmetið? Var fljótlegra að semja (Forseti hringir.) þingsályktunartillögu um aðildarviðræðuslit? (Forseti hringir.)

Herra forseti. Fundarstjórn sem þessi býður bara upp á vangaveltur af þessu tagi.