143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:14]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég velti því mikið fyrir mér hvers vegna sú ákvörðun var tekin af hæstv. utanríkisráðherra og stjórnarmeirihlutanum á föstudeginum fyrir viku að koma fram með þingsályktunartillögu um að slíta viðræðunum inn í miðja umræðu um skýrsluna. Niðurstaða mín er sú að það getur eiginlega ekkert annað verið en að menn hafi ekki viljað ræða efnislega niðurstöðu skýrslunnar. Auðvitað sáu menn fyrir eða hlutu að sjá fyrir þau viðbrögð sem urðu við tillögunni og þau endaskipti sem urðu efnislega á umræðunni, sem fór úr því að vera samræða um hvort við ættum að gerast aðili að Evrópusambandinu í það að við fórum að ræða hvernig sú ákvörðun er tekin og af hverju. Tillagan snýst um að ljúka öllu samtali í samfélaginu um þetta mál. Hún er ekkert annað en forsjárhyggja og yfirgangur.

Það er langbest, vegna þess að við erum búin að ræða þetta mál í áratugi í samfélagi okkar, að meiri hlutinn ráði för, að menn taki ákvörðun um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvernig þetta mál er til lykta leitt. Við erum ekki stödd (Forseti hringir.) í fyrirmyndarríki frekjunnar.