143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[15:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður er að ræða um einn ákveðinn málaflokk, byggðastefnu, og mér finnst mjög upplýsandi nákvæmlega það sem snýr að henni í skýrslunni.

Ég vek athygli á hluta af því sem hv. þingmaður las, hér þurfum við að breyta löggjöfinni þannig að hún samræmist stefnu Evrópusambandsins. Við þurfum sömuleiðis að taka upp upplýsingastjórnunarkerfið því að við þurfum að laga okkur að lögum og regluverki Evrópusambandsins. Ef við förum inn erum við að fara í ríkjabandalag og við munum ekki breyta því nema ef við værum svo lánsöm að við gætum breytt einhverjum hlutum. Þetta er bara þáttur sem þau stjórna. Brussel stjórnar þessu og við getum alveg trúað því að Brussel muni hugsanlega stjórna þessu miklu betur en við gerum. Það er kjarni máls og ég er ekki alveg viss um að Íslendingar átti sig á því.

Ég man eftir að einu sinni hitti ég breskan þingmann sem sagði við mig: „Veistu hver er mesti gallinn við Evrópusambandið?“ Nei, sagði ég, og spurði hvað honum fyndist í því. Hann var einn af fáum breskum þingmönnum sem tengdist sjávarútvegi og sjávarútvegsbyggðum sem almennt er ekki málið í Stóra-Bretlandi. Hann var þingmaður á breska þinginu og hann sagði: „Þegar kjósendur koma til mín og kvarta undan sjávarútvegsmálum segi ég: „Það þýðir ekki fyrir ykkur að tala við mig, þið verðið að tala við Evrópuþingmanninn ykkar.““

Þetta er stóra breytingin. Hv. þingmaður getur haft allrahanda skoðanir á hlutum og viljað breyta þeim og komið fram með mál, t.d. í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og byggðamálum, en ef við förum inn er það til lítils fyrir hv. þingmann að gera það vegna þess að við stýrum því ekki lengur. Það er stóra málið. Ég er ekki alveg viss um að það hafi komið nægjanlega skýrt fram.