143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Enn hafa forsætis- og fjármálaráðherra svikið gefin fyrirheit. Þeir hafa ekki einu sinni döngun í sér til að sitja hér í stólum sínum í þingsalnum meðan sú umræða fer fram enda vita þeir sem er að það er hverjum manni orðið augljóst að orðum þeirra er í engu treystandi og þau eru að engu hafandi. Þó að það sé ástæða til að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa knúið á til að halda fund eftir að tímamörkin voru liðin er ástæða til að hafa áhyggjur af því að það fundarboð sé bara sýndarmennska. Ekkert efnisinnihald hefur verið kynnt stjórnarandstöðunni.

Ég legg áherslu á það við virðulegan forseta að oft hafa fundarhöld farið fram samhliða þingfundi þegar samkomulag hefur verið um það en formenn þriggja stjórnmálaflokka á Alþingi hafa lýst því yfir að þeir vilji að hlé sé gert á þingfundi meðan þessi fundur fer fram, enda eðlilegt þegar á dagskrá Alþingis er stærsta stefnumarkandi ákvörðun þjóðarinnar á síðari tímum. (Forseti hringir.) Formenn stjórnmálaflokkanna verða allir að hafa tækifæri til að vera viðstaddir hana alla og ég treysti því að forseti geri hlé á þingfundi meðan formannafundur fer fram.