143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

ummæli forsætisráðherra í kosningabaráttu 2009.

[16:00]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þessa skætingsfyrirspurn hv. þingmanns. Ég hef áður farið yfir þetta mál og gerði það raunar fyrir nokkrum árum varðandi það kosningaefni sem getið er um. Ég hef jafnframt vísað til þess að hafi hv. þingmaður einhverjar efasemdir um afstöðu mína til þessa máls geti hann hlustað á viðtöl við mig fimm ár aftur í tímann, allt frá flokksþingi framsóknarmanna árið 2009 þar sem ég benti á hversu áhættulítil leið það væri að setja fram skilyrði fyrir fram gagnvart Evrópusambandinu. Þá mundi koma í ljós að Evrópusambandið gæti ekki uppfyllt þau skilyrði enda getur það ekki gefið eftir af grundvallarreglum sambandsins.

Hins vegar vekur spurning hv. þingmanns upp mjög áhugaverða spurningu í samhengi þess máls sem hér hefur verið til umræðu, nefnilega þá hvort eðlilegt væri að mati hv. þingmanns að ráðherrar í ríkisstjórn sem er andvíg aðild að Evrópusambandinu semdi um það við Evrópusambandið að viðræðum um inngöngu Íslands í sambandið yrði lokið og undirrituðu svo samning sem þeir væru ósammála til þess eins að geta farið að berjast gegn þeim samningi.