143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara nefna það að eftir þann fund sem formenn flokkanna áttu í kvöld hefur forsætisráðherra tilkynnt opinberlega að lausnin sem hann sér í þessu máli sé sú að þingnefndin sem taki við þessari tillögu geti tekið tillit til tillagna stjórnarandstöðunnar. Það hefur náttúrlega alltaf legið fyrir, stendur skrifað í þingsköp og eru ekki miklar fréttir.

Það sem þarf til að greiða fyrir þingstörfum er að heyra hvort stjórnarmeirihlutinn hyggst taka mið af athugasemdum yfir 20% kjósenda, athugasemdum alls atvinnulífsins í landinu og verkalýðshreyfingarinnar um að þessu ferli verði ekki slitið án aðkomu þjóðarinnar. Það er grundvallarspurning. Á meðan hótun stjórnarmeirihlutans um það liggur í loftinu er ekki hægt að greiða fyrir þingstörfum. (Forseti hringir.)Boltinn er hjá forustu stjórnarflokkanna að þessu leyti. (Forseti hringir.) Ég held að það sé ágætt að láta nú nótt sem nemur á þessum fundi og halda áfram á morgun og bíða viðbragða ríkisstjórnarflokkanna.