143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég og hv. þingmaður deilum að mörgu leyti því viðhorfi að hag okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins, en ég er þar stödd í þessu máli öllu að ég tel að við eigum að horfa til þess að þjóðin fái að ákveða næstu skref.

Mig langar að velta því upp við hv. þingmann hvort hún telji að þetta mál hverfi út úr umræðunni og verði ekki á dagskrá áfram ef aðildarviðræðum verður slitið núna, hvort það muni ekki dúkka aftur upp og halda áfram að vera þrætuepli þjóðarinnar og viðfangsefni okkar til framtíðar ef við tökum ekki það skref að ljúka þeirri vegferð sem við vorum komin á, hvort sem við vorum sammála þeirri vegferð í upphafi eða ekki. Er ekki betra að fá niðurstöðu í erfið mál en að hafa þau endalaust kraumandi undir niðri? Er ekki skynsamlegra að taka rökræðuna um kosti og galla þess að vera í Evrópusambandinu þegar það liggur fyrir kvitt og klárt út á hvað það gengur? Er það ekki sá tímapunktur sem menn eiga að skylmast um hvort hag okkar sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins? Erum við ekki að berjast núna við einhverjar vindmyllur sem við vitum ekki almennilega hverjar eru? Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þessara spurninga.