143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er ófremdarástand í samgöngumálum Vestmannaeyinga. Hásetar, þernur og bátsmenn á Herjólfi eru í yfirvinnubanni, samtals sex áhafnarmeðlimir. Þetta hefur afar slæm áhrif á atvinnulíf í Vestmannaeyjum. Fiskmarkaður Vestmannaeyja verður af tugmilljónaviðskiptum þar sem bátar hverfa frá Eyjum og sigla annað með aflann. Íbúar þurfa að dvelja um lengri tíma á fastalandinu vegna þess að það er eingöngu ein ferð á dag og engin um helgar og þetta er algerlega óviðunandi staða.

Þetta er í skjóli þess að mjög óraunhæfar kröfur eru gerðar um launahækkanir eða á bilinu 43–120% og ég held að við í þessu samfélagi styðjum ekki slíkar launakröfur. Náðst hefur ágæt sátt í samfélaginu um laun og launahækkanir og þessar kröfur eru því úti á túni miðað við það sem gert hefur verið. En framkvæmdastjóri Sjómannafélags Reykjavíkur segir, með leyfi forseta:

„Hættum ekki fyrr en við náum samningum á okkar forsendum. Er alveg sama þó við dinglum við þetta fram á sumar.“

Þetta eru alvarleg skilaboð til Vestmannaeyinga. Flugvöllurinn í Eyjum er lokaður um helgar en ég hef hvatt hæstv. innanríkisráðherra til að beita sér fyrir opnun flugvallarins og hún tók því afar vel.

Í dag hef ég frétt af því að sjómannafélagið hafi sett yfirvinnubann á Brúarfoss sem kemur til Vestmannaeyja á morgun til að taka gámafisk til Englands eingöngu til að hefna sín á Vestmannaeyingum að ég sé best. Það er algjört ófremdarástand að sjómannafélagið skuli ætla að nota háseta á Herjólfi sem héra í launabaráttu sinni við skipafélögin.