143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:30]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Miklar líkur yrðu á því að hér mundi verða aukinn stöðugleiki ef við tækjum upp evru. Hvers vegna leyfi ég mér að fullyrða þetta? Vegna þess að megnið af útflutningi okkar er til Evrópuríkja og það segir sig sjálft að ef verið er með sama gjaldmiðil í slíkum viðskiptum þá verður aukinn stöðugleiki.

Það sem ég vil líka nefna í þessu er að ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa sjálf staðið í innflutningi á árum áður í fastgengisstefnu, þá langar mig heldur ekki þangað aftur. Við erum búin að prófa fastgengisstefnu, við erum búin að vera með flotgengi og við erum núna aftur komin í höft og menn eru að ræða einhvers konar míníhöft hugsanlega seinna meir af stærri fjármagnsflutningum miðað við áætlanir Seðlabankans. Mér líður eins og ég sé í einhverri tilraunastofu. Gjaldmiðill er verkfæri og (Forseti hringir.) við erum að mínu mati búin að fullreyna það verkfæri. Menn mega ekki vera of tilfinningatengdir íslensku krónunni (Forseti hringir.) þegar þeir vega og meta kosti og galla þess að skipta um gjaldmiðil.