143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:38]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú þannig með mig að ég hef tamið mér þá reglu þegar ég les bækur að ef bækurnar hafa ekki náð mér á 50 blaðsíðum legg ég þær til hliðar og les eitthvað annað, mér finnst tíma mínum betur varið þannig, þetta er bara regla. Það er þá alltaf mín niðurstaða að ákveða hvenær ég skuli láta gott heita.

Ég hef nú ekki farið í kvikmyndahús með hæstv. utanríkisráðherra en ég mundi ekki láta hann ákveða að við ættum að hverfa af vettvangi í hléi bara vegna þess að hann teldi víst að myndin mundi fara illa. En ég hef það svolítið á tilfinningunni í þessu máli að búið sé að ákveða það fyrir mig að þessi mynd muni fara mjög illa og ég eigi ekki að sjá restina, ég eigi ekki að fá að vita hvernig aðalsöguhetjunum reiðir af. Ég hef lent í því að þurfa að fara úr kvikmyndahúsi af mynd sem ég var mjög ánægður með áður en hún var búin og óvissan um örlög hetjanna nagaði mig lengi vel. (Forseti hringir.) Ég er því ánægður með hv. þingmann að hann skuli vera mér sammála í þessum efnum.