143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vitnaði hér til orða hæstv. forsætisráðherra þar sem hann taldi allt á mikilli uppleið á Íslandi hin síðari missiri en á niðurleið í Evrópu. Nú er það í sjálfu sér gott að forsætisráðherra hafi séð ljósið og viðurkenni að þokkalegur efnahagsbati hafi verið í gangi á Íslandi undanfarin missiri, en hann féll í þá gryfju sem mér hefur alltaf þótt dapurleg í umræðunni undanfarin ár, að gera eiginlega út á erfiðleika Evrópu sem rök í þessu máli hvernig tengslum Íslands við það eigi að vera háttað, af því að sannarlega eigum við mikið undir því að Evrópu vegni vel.

Það breytir hins vegar ekki hinu að auðvitað hefur glíma Evrópusambandsins við erfiðleikana leitt ýmislegt í ljós, þar á meðal hvernig jaðarríkjum eins og Grikklandi eru settir kostirnir. Og af því að ég þekki nú sæmilega til þar og hef sambönd við menn þar hef ég það frá fleiri en einum og fleiri en tveimur og líka frá t.d. Írlandi og Portúgal að af þeim þremur sem að málinu hafa komið, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Evrópska seðlabankanum og framkvæmdastjórninni, (Forseti hringir.) hafi framkvæmdastjórnin verið harðdrægust í samskiptum við þessi lönd. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er hann ekki eftir sem áður sammála því (Forseti hringir.) að það geti verið áhugavert að skoða hvernig Evrópusambandið hefur birst okkur í þessum efnahagsþrengingum?