143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræðan hefur náttúrlega verið eins og við vitum ótrúlega svart/hvít, þ.e. gagnvart þeim sem aðhyllast aðild og þeim sem eru alfarið á móti. Sumir eru kannski tvístígandi en þeirra rödd heyrist síður.

Ég tel tækifæri í því að ljúka samningnum eins og ég hef lýst í þeim ræðum sem ég hef haldið um þessi mál og það er fyrst og fremst vegna þess að þá tel ég að við höfum þær upplýsingar sem við þurfum til að taka ákvarðanir sem byggjast á einhverju raunverulegu en ekki spekúlasjónum einstakra manna.

Ég er ekki endilega viss um að ég hafi lesið það sama út úr skýrslunni og hv. þingmaður um unga fólkið. Þar kemur líka fram töluvert atvinnuleysi og fleira í Evrópuríkjunum. Þrátt fyrir það finnst mér svo mikilvægt að þessi fyrri umræða festist ekki í andstæðum pólum og vil kannski sjá þau sóknarfæri sem ég tel felast í því að ljúka þessu máli.

Það er niðurstaða okkar vinstri grænna að við viljum að við tökum þessa ákvörðun í sameiningu og sátt við þjóðina en ekki að okkar ólíku sjónarmið séu þau einu sem fái þar að ráða. Tækifærin eru til staðar til að ljúka því og skýrslan, eins og ég sagði í ræðu minni, er ekki hinn stóri sannleikur. Það verður líka áhugavert að sjá hvað kemur fram í skýrslunni sem Alþjóðamálastofnun er að vinna og hvort niðurstöður þar verði allt aðrar en þær sem við höfum nú haft sem veganesti í umræðunni.