143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ekki er þetta alveg rétt munað hjá hv. þingmanni. Það segir ekkert um þetta í viðaukanum. Það liggur algjörlega skýrt fyrir hver var afstaða meiri hluta utanríkismálanefndar og síðan meiri hluta þingsins varðandi tollverndina. (HöskÞ: Annað segir skýrslan.) — Nei, þetta er tollabandalag. Í því felst að tollverndin fellur niður við aðild.

Þetta er sagt algjörlega skýrt í áliti meiri hlutans. Síðan er sagt þar líka að einmitt út af því þurfi sérstaklega að taka á hagsmunum einstakra greina. Þar er mjólkuriðnaðurinn nefndur alveg sérstaklega. (Gripið fram í: Engin …) — Nei. Til þess að … (HöskÞ: Engar sérlausnir?) — Jú, sérlausnir um með hvaða hætti ætti síðan að koma fram stuðningi við bændur, en það er önnur saga. (Gripið fram í.) Engin sérlausn var um tollverndina að því marki nema það átti að borga hana bændum beint í staðinn fyrir að neytendur borgi bændum í hvert skipti sem þeir kaupa landbúnaðarvarning við kassann. Þetta var algjörlega skýrt af formanni þáverandi utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, sem skrifaði grein til þess að slá þetta í gadda.